Hvanneyri

Þormóðseyri og HvanneyrarskálSá bær hefir verið hið fjórða og ysta fornbýli vestan Siglufjarðar, en skammt milli þeirra allra. Stendur hann út og upp frá Þormóðseyri, sem mjög mun hafa eyðst að norðan þegar í ómuna tíð, og einnig að síðustu, fyrir grjótnám og fleiri vanhyggju manna. Bæjarstæði er hér gott, á melhöfða einum niður frá hlíð fjallsins. Hefir tún verið allstórt, en fremur óslétt. Sjást nú litlar leifar fornra garða utan og ofan þess er mjög hafa varið það vatnságangi er síðar hefir spilt því. Sunnan þess voru tveir fornir garðar og hinn yngri sunnan allstórrar flæðigrundar sem fyrst hefir verið sunnan túns. Má helst ætla að það sé Hvanneyri (2) sú er nafnið er af komið eða túnið allt sunnan bæjar. Hefir lækur sá er nú fellur norðan bæjarins, nefndur: Hvanneyrará (3) myndað grundir þessar í fornri tíð og þá fallið suður allt í ós Álalækjar, en einnig oft hér þvert niður í lón mikið yst á láglendinu og fyllt það að nokkru, nefnist það: Hvanneyrartjörn (4) sjást glöggt fornir farvegir árinnar, einnig hið forna tún ofan og sunnan bæjar. Er líklegt að hvanngróður hafi mikill verið í dalhvolfi því er vestur gengur í fjöllin nær miðhlíðis upp frá bæ og nefnist Hvanneyrarskál (5) og hafi áin, er þaðan kemur, borið hann á láglendið. Haglönd eru hér allgóð efra og út um hlíð og strönd, en engi var gott sunnan bæjar og nokkur ytra; rekar miklir og útræði gott. Var jörð þessi hér með þeim bestu talin. Hér var þingstaður á 18. og 19. öld, fluttur frá Siglunesi; en prestssetur og aðalkirkja frá 1614 einnig þaðan flutt. Bænhús og grafreitur var hér áður. Búnaður hefir hér nokkur haldist til síðustu ára. En svo hefir byggð kaupstaðarins nú gengið á þetta forna býli, að brotið er engið, og túnið mjög, þó síst hafi þess þörf verið; mun því skammt þess að bíða að flest verði hér glatað, menja og minninga, utan örnefni einhver er á byggð þessa mættu nokkuð minna.

Á leið upp í GróuskarðNefnast hátindar fjallsins (tveir saman) norðan Hvanneyrarskálar: Hvanneyrarhyrnur (6) en nær og neðar í hlíðarröðlinum Gróuskarð (7) og Gróuskarðshyrna (8). Hlíðin suður og upp frá bæ, milli árinnar og suðurmerkja: Hvanneyrarreitur (9) og takmarkast hann að ofan af neðri brún Skálarinnar og klettabríkum tveimur suður frá henni eru það Ysti Gimbrarklettur (10) og Mið Gimbrarklettur (11) er áður getur; en niður frá reitnum að Álalæk var hið fagra: Hvanneyrarengi (12). Þá nefnist undirlendið allt út frá túni: Hvanneyrarströnd (13) en bakkarnir neðan þess og túnsins út frá á: Hvanneyrarbakkar (14) einnig víkin niður frá bæ: Hvanneyrarkrókur (15) og malarkambur breiður sunnan hennar: Hvanneyrarmöl (16) náði kambur sá umhvefis láglendið norðan og austan; en innan hans hefir norðurhluti þess aðeins verið lón mikil (tvö) og forir, utan sandrif fornt er suðvestur lá frá norðaustur horni, nefnt: Grandi (17) voru yst á honum lengi fjárhús frá Hvanneyri, nefnd Grandahús (18) og túnblettur: Grandatún (19). Nefndist og lónið suðaustan Grandans: Grandatjörn (20) náðu drög hennar allt suður austan Þormóðseyrar, þar byggt var býlið Tjarnir, áður nefnt. Eru nú lón þessi fyllt að mestu. En norðvestan Grandans þar verið hefir hið mesta og elsta lónið eru enn víðlendar forir, leifar þess, og Hvanneyrartjörn áður nefnd, nú lítil orðin og grunn.

Prestssetrið Hvanneyri á HvanneyrarhóliHvanneyraráin var virkjuð 1913

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ofan við bæinn er lautardrag nokkurt, er það forn farvegur árinnar, hinn neðsti suður um melinn, áður en hún náði farveg norðan hans nefnist melbalinn ofan lautar: Kirkjuhóll (21) var þar kirkjan til 1890 og kirkjugarður notaður til 1907 og þó nokkuð síðar, en er allur niður brotinn og minnismerki flest glötuð. Út og niður frá bæ, sunnan ár, var hóll lítill þýfður og mýraseyrur einnig þýfðar í kring, nefndist þessi blettur túnsins: Helvíti (22). Norðan árinnar nefndist neðri hluti túnsins: Gerði (23) eru þar tvennar fornar tóftir. Á efri hlut þess eru hávaðar þrír með byggðaleifum ofan vegar, er nú liggur um túnið endilangt; nefndist hinn ysti: Ærhúshóll (24) var yst á honum steinn mikill nær hnöttóttur, nefndur: Grásteinn (25) var hann álfabýli talinn og stóð af honum mikill geigur. Nokkuð sunnar og ofar er næsti bali og byggðaleifar, nefndist þar: Paradís (26) og suður og upp þaðan hinn þriðji með tóftum nefndist þar Jerúsalem (27). En Jeríkó (28) nefndist þar ofan túnsins, þar hesthús var og kvíaból; er þar nú býli Karls Dúasonar. Þar suður af er foss lítill í ánni, réttnefndur: Skaftafoss (29) því undir honum drekkti sér Skafti Jónsson, er hér var prestur 1878 til 1887 máske í ölæði sem honum var títt. Man best þann atburð nú Guðmundur Bjarnason á Bakka, næsta hjábýli Hvanneyrar, en þar hefir hann verið æfilangt og þá nær fulltíða (fæddur 186.. ) en sagt var almenningi að heima hefði prestur bráðdauður orðið í bóli sínu og mun því hér enn fast trúað. Þess gat og sonur Guðmundar, nú dáinn að þá hann ungur lék sér við ána, var laut ein nálæg fossinum nefnd: Frakkalaut (30) hafði þar frakki prests fundist og hann síðan í ánni. Er ærið nóg slíkra falsana þó einni sé hnekkt. Nokkur voru hjábýli reist í landi Hvanneyrar hina síðustu öld og fyrst þeirra býlið: Lækjarbakki (31) sést það í manntalsskrá 1813 en hvar það stóð er ekki fullvíst; varð sá úti það ár, er þar bjó og hefir það brátt í eyði farið. Þá var býlið Hvanneyrarkot (32) byggt um 1831 syðst á enda Grandans, þar hann mætir eyrinni, niður frá Álalæk; stendur það enn og nú skásett norðan við ytri húsaröð Eyrargötu og telst þar Lækjarg. 15.

Húsin í Bakka böðuð í morgunsól (1980)Eyrargata 4, Eyri

 

 

 

 

 

 

 

 


Þá býlið Hvanneyrarbakki (33) byggt um 1866 yst í jaðri Hvanneyrartúns, við sjó niður; var síðar flutt skammt utar og ofar og stendur þar enn, en í stað þess neðra þá var byggð síldarstöðin Bakki. Þá var býlið Lækur (34) byggt um 1881 nokkuð suður með Álalæk að vestan; er það nú á horni, vestan Lækjargötu en sunnan Eyrargötu, telst: Eyrargata 19. Þá býlið Sandhóll (35) byggt um 1882 nokkuð sunnar, og austan Álalækjar; nú horfið og þar brauðgjörðarhús (Lækjargata 10) þá býlið: Lækjarbakki (36) byggt um 1883 ofan Álalækjar og nálægt býlinu Læk mun þar teljast nr. 21. Eru enn hávaðar nokkrir þar býli þessi stóðu og líklegast að þar hafi hinn fyrri Lækjarbakki staðið, nema verið hafi ytra þar síðan var byggt býlið Hvanneyrarbakki, því einnig fellur lækur þar niður. Þá var býlið Eyri (37) byggt 1884 yst á aðal eyrinni stendur það nú í ytri húsaröð Eyrargötu, enn með sama nafni, telst Eyrargata 4. Loks voru tvö býli reist yst á Grandanum, þar fjárhús voru og tún nokkurt, býlið Kambur (38) 1897 og býlið Kambhóll (39) lítið vestar; en allt er það land nú af sjó brotið þar byggðir þessar voru og túnið; var býlið Kambur þá sunnar reist, en svo rifið og þar byggð olíustöð B.P. Voru öll smábýli þessi af torfi gjörð, en síðar af timbri, þau er endurbyggð voru og enn standa.

Út og fram frá Hvanneyrará er blindsker það er: Ársker (40) nefnist og skammt út frá túnenda annað slíkt, nefnt: Brúnka (41). Þar skammt utar er vogur lítill nefndur: Illibás (42) og þá litlu utar tveir litlir vogar, en út og fram frá þeim steinar nokkrir nefndir Vogasker (43). Nær miðleiðis út á Hvanneyrarströnd hefir selstöð verið, nefnist þar: Hvanneyrarsel (44) sunnan þess Selmýri (45) en norðan Selgil (46). Þar all hátt í hlíðinni er hvolf mikið nokkuð grösugt nefnt Selskál (47) og norðan hennar hvass hnjúkur austan í hlíðinni þó lægri en háfjallið nefndur Selskálarhyrna (48). Niður um gilið úr skálinni fellur Selá (49) en þar fram af var bergdrangur umflotinn sjó nefndur Selgilsstapi (50) er hann nú fallinn. Um 1672 var býli reist þar sem verið hafði selið eða litlu neðar nefndist það Selkot (51) en fór í auðn 1698 (Jarðabók) er hér því túnblettur nokkur og tóftir margar var hér og síðar stekkur en síðast innar á ströndinni. Nokkuð út frá Selgili er annað gil nefnist milli þeirra Miðströnd (52) en hið ytra Miðstrandargil (53). Fram frá því er blindsker nefnt Fljótamannsker (54) og litlu utar nokkur sker er miðast við Fiskihrygg sem getið er innan Siglufjarðardals nefnd Fiskihryggssker (55).

Hlíðin ofan bæjarins er gjörbreytt af snjóflóðavarnargörðumHlíðin ofan bæjarins er gjörbreytt af snjóflóðavarnargörðum

 

 

 

 

 

 

 

 

Þar út er undirlendi þrýtur og Landsendi (56) nefnist gengur vík upp að hinu sæbratta bergi er þá tekur við, nefnd: Landsendavík (57) og gildrag suður og upp frá henni Landsendagil (58) en framan víkur út frá Landsenda er drangur laus frá landi nefndur Landsendastapi (59). Upp frá víkinni er hamrahlíð nær ókleif nefnist sá kafli Ófæra (60) og út og upp þaðan í hlíðinni dæl nokkur Ófæruskál (61). Norður frá henni eru gildrög tvö nefnist hamrabeltið milli þeirra Ábætir (62) en gilin Innra Ábætisgil (63) og Ytra Ábætisgil (64). Þar litlu utar er grasblettur lítill niður á hinum sæbrotnu bökkum er nefnist Grænanef (65). Þar skammt utar er berghlein fram frá bökkunum og vogur lítill að innan svo ófært er þar fyrir nema í kyrrð og lágsævi nefnist hér Innri Forvaði (66). Nokkuð utar er allhár drangur fram í sjó nefndur Karl (67). Þar upp af ganga gildrög tvö alllöng ofan hlíð allt að fjöru annað lítið innar (en Karl), nefnt Innri Festi (68) hitt lítið utar nefnt Ytri Festi (69) er það þráðbeint niður frá ysta hálendi fjallsins og vafalaust hin réttu fornu merki en drjúgum lengra hefur Hvanneyrarprestum tekist að seilast út fjörurnar því reka von og hlunninda var hér nokkur og loks fengið þau sett út í Djúpavog [(70)]sem yst er undir berginu þó óbreytt séu að ofan, því engar var þar landsnytjar að hafa. Eru hér smávogar margir undir berginu og einnig utar og nefnast hér tveimmegin hinna réttu fornu merkja Syðri Vogar (71).

Ófæruskál og landsendi

 

Kort af Siglufirði frá 1918

 


Fara efst á síðu