Vík

Útsýni yfir VíkurlandSá bær er austan Héðinsfjarðar, skammt út frá botni hans. Stendur hann fast við sjó niður og næsta lágt. Hefir þar áður verið vík nokkur, en norðan hennar breiður höfði, er brim hefir mjög sorfið og víkin loks fyllst að mestu. Ekki hefir hér bær verið reistur á fyrstu öldum landsbyggðar, því byggðarstæði er hér lítið og tún og túnefni því minna. En verstöð fjarðarbúa hefir hér líklega verið frá öndverðu og síðar einnig býli. Má ætla það byggt í löndum Héðinsfjarðar, sem hér stóð við fjarðarbotninn og lengi var hér helst býla í firðinum. Hefir Vík þá þau lönd haft, austan fjarðarins, sem henni verða hér talin. Eru það haglönd allmikil, útiganga nokkur og rekar, auk hins hæga heimræðis; en engi fremur lítil. Fátt er þó um byggð þessa kunnugt fyrir 1600 og mun þá hafa óstöðug verið, sem aðrar hér í þá tíð, uns býlið Héðinsfjörður var að fullu í auðn komið, líklega um 1600. Hefir Vík þá þegar fengið nokkurn hlut af nytjum hans og síðar nær allar. Var hún og helsta býli fjarðarins þegar á 17. öld og jafnan síðan. Mun hér hafa verið búið nær óslitið frá byrjun 17. aldar, utan 3 ár eftir Stórubólu 1709 – 1712. Og ein var Vík í ábúð allmörg ár eftir 1755; líklega til 1768. Hélst hér enn ábúð tveggja búenda og eru hér að síðustu bæir tveir, allmjög aðskildir.

Allmikill dalur gengur hér austur og suðaustur í fjöllin, er nú nefnist: Víkurdalur (2). Norðan hans er fell mikið og hátt, nefnt: Víkurbyrða (3) en sunnan hans vestast fjallstindur einnig hár nefndur: Víkurhyrna (4). Gengur þar fjallið fast að horni fjarðarins, allbratt og nefnast þar: Víkurkleifar (5). Niður dalinn hefur snemma gengið framhlaup allmikið, allt fram í fjörð. Hefir það myndað hinn breiða höfða og hólaklasa mikinn þvert yfir um dalsmynnið, ofan víkurinnar; nefnast það: Víkurhólar (6). Suður frá höfðanum, allt inn fyrir víkina, hefir malarkambur mikill safnast; nefnast þar: Víkurmalir (7) en ofan þeirra: Víkurlón (8) hefir þar verið lón nokkurt, leifar víkurinnar; en nú nær fyllt. Utan lónsins, nær yst út í víkina, fellur á sú er úr dalnum kemur, og nefnist: Víkurá (9). Hefir bærinn staðið á suðurbakka hennar og melrima litlum utan lónsins, en nú að síðustu utan ár. Út frá Víkurhólum, vestan Víkurbyrðu út að Hvanndalaskriðum, nefnist og: Víkurströnd (10). En undir skriðunum vestarlega: Víkurforvaði (11) er hann vestastur forvaðanna undir Hvanndalaskriðum.

Syðri-Vík á VölvuhryggSkammt inn frá Víkurá, nokkuð upp frá víkurlóni, var bær gjörður 1914 nefnist hann Syðri-Vík (12) býr þar nú annar ábúandinn. Þar skammt utar, ofan við ytri hlut lónsins, hefir og bær verið; var þar búið 1751 þá aðeins 1 til 2 ár, en máski eitthvað áður þó ei sé kunnugt. Þar eru tóftir skýrar og bæjartóft ein nýleg ekki hálfhlaðin. Hefir þar oft átt að endurbyggja, því byggðarstæði er þar fagurt, en þó frá því horfið. En norðan tóftanna hóll lítill, eða þúfa, er virðist klettur einn hulinn sverði; nefnist það: Völvuhóll, eða: Völvuhaugur (13) en býli þetta: Valva (14). Er það hér víst talið og mörgum rökum stutt, að í þúfu þessari búi eitt hinna skæðu meinvætta byggða þessara; og gjaldi þeim grimmar hefndir er hér byggja, eða nytja hið góða túnefni umhverfis. Sunnan við býli þetta gengur löng grösug dæld allt ofan úr hólum nefnist hún: Völvulaut (15). Lækur er um hana fellur: Völvulækur (16) og melhryggur suður frá henni: Völvuhryggur (17). Á honum stendur nú býlið Syðri-Vík og af mörgum í hættu talið. Þar niður frá, ofan og sunnan við Víkurlón nefnast Lónsmýrar (18). En lækur lítill er í það fellur yst: Lónslækur (19). Niður á Víkurmölum hafa búðir verið nokkrar, en lítið sést nú þar mannvirkja, því eftir stórbrim haustið 1936 er þar urð ein, þar varir voru, búðatóftir og fleira. Voru þar yst neðan lónsins tóftir nokkrar, nefndar Lónstóftir (20). Þá næst innar: Brandsbúð (21). Þá Bersabúð (22) báðar uppi um síðustu aldamót. Og innst, nær suður við Kleifar tóft ein nefnd Loftsbúð (23). Upp frá hinu gamla bæjarstæði á láglendi sunnan ár, er þúfa ein lág og flöt nefnd: Leiði (24). Gengur hér sú sögn, að skip hafi hrakist upp á Héðinsfjarðarsand, menn bjargast og gengið Víkurdal til Ólafsfjarðar, utan einn er Víkurbóndi: “Galdra Egill” eða “Galdra Björn” hafi myrt og þar grafið. Virðist saga þessi frá 1755 til 1760 þá Vík var hér ein byggð; bjó hér 1755 – 58 Egill nokkur fátækur, en 1758 – 60 Björn einhver fjáður.

Víkurhyrna, Víkurhólar í forgrunniUtan ár og bæjar er hólbali lítill með tóftum, nefndur: Lambhúshóll (25) er sjór tekinn að brjóta hann. Ofan bæjar og utan nefnist frambrún hólaklasans: Hólabrún (26). Á henni, sunnan ár er steinn einn stakur nefndur: Dagmálasteinn (27). Út frá bæ skammt ofan brúnar er: Háihóll (28). Suðaustur frá honum er laut grösug nefnd: Ljúflingslág (29). Fram undan hólunum nokkuð út frá bæ, við sjóinn, koma uppsprettur nokkrar, nefndar: Hveisulækir (30). Inn og fram frá þeim er blindsker eitt, nefnt: Brúnka (31). En nær yst fram frá hólunum er flúðatangi lítill, nefndur: Músartangi (32). Hóll sá allstór sem ystur er hólanna, fram við sjó, nefnist: Strandarhóll (33). Liggur út þaðan Víkurströnd, áður nefnd og hefir hann nafn af henni. Út þangað liggja vegslóðir yfir hólana, skammt upp frá Strandarhól. Nokkuð ofar, suður frá Víkurbyrðu, er hár hóll, einnig þar ystur hólanna, nefndur: Sjónarhóll (34). En allmikið ofar og efstur hólanna er: Stórhóll (35). Ofan vegarins, nokkuð út í hólunum er dæld allmikil, nefnd: Sigurðarhvammur (36). Og upp frá honum önnur slík, nefnd: Þorlákshvammur (37) munu þetta nýleg nöfn vera. Suður við ána nokkuð ofar, er og lægð allbreið, nefnd: Magnúsarhvammur (38). Í honum er tjörn ein nefnd: Stóratjörn (39). Upp frá Stórhól, efst sunnan Víkurbyrðu, eru allbreið daladrög gróðurrýr, nefnd: Draugadalir (40). Sunnan með Víkurbyrðu, norðan við hólana, eru balar grænir og grundir nokkrar, nefnast þar, ofan Sjónarhóls: Smjörbalar (41) en neðan hans: Byrðubalar (42).

Horft til suðurs af VíkurbyrðuAð vestan út með Víkurbyrðu liggur fyrrnefnd Víkurströnd, mun lægri hólunum, slétt og grösug. Er innst við hana, út frá Strandarhól, vík nokkur er áður nefndist: Melavík (43). Hefir þá framhluti hólanna kallast melar, því af þeim einum varð nafn þetta dregið. Þetta nafn víkurinnar er hér nú algleymt og kallast hún Stekkjarvík, því við hana var stekkur á síðustu öld. En allhátt út og upp í híð fjallsins er hvolf nokkurt er enn nefnist: Melavíkurskál (44) og neðan hennar: Melavíkurklettar (45). Í víkinni er lending allgóð og sagt hér, þar hafi eitt sinn verstöð verið, helst Svarfdælinga. Lítið sést þar þó tófta því eyðst hafa þær við bygging stekkjarins. Vel mætti og vera að hér hafi hjábýli eitthvert verið um stund, helst á fyrri hlut 17. aldar því 1779 getur Ólavíus hér um eyðibólið: Melavík (46). Þess getur Jarðabók þó ekki 1712. En svo bágar upplýsingar hafa íbúar þessa héraðs þá víða veitt höfundum hennar, að lítið má því treysta. Munnmæli geta og hér um býlið: Dálkstaði (47) og telja það hafa staðið nokkuð ofar, beint upp frá víkinni. Þess geta þó engar heimildir og engar eru þar tóftir, aðeins tveir grænir balar, sem verið gætu byggðaleifar, þó furðu afmáðar. En byggðarstæði er hér fagurt, svo freistast mætti að trúa því. En skammt hefir þá sú byggð varað og bæði geta nöfnin átt við sama býlið. Nokkuð út frá Melavík, fellur: Miðstrandarlækur (48). Litlu utar er flúðatangi mjög sléttur, er nefnst hefir: Hilla (49). Utan við hana er vík lítil og lending, en búðatóft á bakkanum, lítið innar hefir víkin nefnst: Hillubás (50) en búðin Hilluskáli (51) þó öll séu nöfn þessi nú svo aflögð að enginn skilur. Hefir hér og verstöð verið og líklega búið á 17. öld. Telur Jarðabók 1712 þetta eyðihjáleigu, er snjóflóð hafi tekið, ásamt manni.

Skriðnafjall, Músardalur, Víkurbyrða, VíkurdalurÞar litlu utar er nefnd: Skjónuvík (52) og: Skjónuvíkurbakkar (53). Utan við vík þá er vogur einn, nefndur: Bolabás (54) og í honum klettahlein nefnd: Bolahryggur (55). Litlu utar gengur melhryggur fram úr hlíðinni, nefndur: Rípill (56). Niður frá honum er: Rípilsvík (57). Og þar neðan bakkanna nefnd: Teistuurð (58) en innar lítið í bökkunum: Svörtuklettar (59). Lítið utar endar Víkurströnd, kallast þar: Landsendi (60) og utan hans: Landsendavík (61). Austur í fjallið gengur þar alldjúpt dalverpi nefnt: Músardalur (62) og inn í honum: Músardalsbalar (63). Skilur hann Skriðnafjall að mestu frá Víkurbyrðu, en norðan í því eru Hvanndalaskriður, hvort tveggja fyrr nefnt. Vestan til í þeim eru lækjadrög nokkur og nefnist það svæði: Lækir (64). Niður frá þeim er Víkurforvaði, einnig fyrr nefndur.
Frá Hvanndölum er helst leið, sem getið er, yfir Víkurbyrðu, norðan við hvolf eitt sunnan í henni nær efst og niður um melbungu breiða, að suðvestan; nefnist hún Rauðhaus (65) en hvolfið austar: Kristínarskál (66). Er sagt að í hana hafi Kristín nokkur hrapað. Austur og suðaustur frá botni Víkurdals eru skörð tvö og um þau gangfærar leiðir til Ólafsfjarðar. Nefnist hið ytra: Loftsskarð (67) hið innra: Rauðskarð (68). En milli þeirra: Rauðskarðshnjúkur (69). Niður frá Rauðskarði er Rauðskarðsskál (70) neðan hennar Rauðskarðshjallar (71) og niður frá þeim: Rauðskarðsmýrar (72). Þar ofan kemur og kvísl ein nefnd: Rauðskarðsá (73). Á dalnum sunnan ár nær miðleiðis, nefnist: Leiti (74). Upp frá horni fjarðarins, í áðurnefndum Víkurkleifum, eru gildrög tvö og skammt á milli nefnast þau: Ytra-Kleifagil (75) og Innra-Kleifagil (76). Má ætla að þar hafi verið suðurtakmörk Víkurlanda í fyrstu, sem síðar mun getið.

Svörtuklettar

Steinnesskál 



 

 

 

 

 

Hestskarðseyri

 Víkurhyrna og Sandvellir

 

Víkurhólar – Hesturinn - (Panorama)