Bær sá var spöl nokkurn, beint inn frá Siglufirði, nær yst í aðaldalnum, austan ár; heitir dalur sá að réttu Siglufjarðardalur (2) þó hér nefnist Hólsdalur og áin Siglufjarðará (3). Mun Hóll hafa á fyrri öldum verið hér mest bújörð og snemma byggður; hefur forn girðing, mjög stór, verið um tún, og engi all mikil umhverfis það, sér leifar hennar út og upp frá túni, óglöggt suður frá túni, en best á neðsta melröðli við á niður, all langt frá túni, en engi eru þar góð innan og utan melanna og nær hvarvetna út frá túni, en svo rök að víðast eru mannvirki þessi horfin. Tún hefur allmikið verið á melhólum nokkrum og lönd dalsins hefir Hóll átt öll austan ár til sjávar, en Saurbær síðar fengið ysta hlut þeirra ásamt reka m.m. Hefir austur hluti dalsins verið við Hól kenndur og Hólsfjall (4) nefnist nú fjallið austan hans og Hólsskarð (5) lægðin innan þess austur frá dalbotni er haft eitt lítið skilur frá Ámárdal og vegslóðir eru yfir, sem getið er, til Héðinsfjarðar.
Neðsti hluti hins gamla túns er melrani mjög langur er sniðhalt gengur suður og upp og nefnist Langhóll (6) má ætla að bærinn hafi fyrst staðið utarlega á honum eru þar byggðarústir miklar og hægast að vatni, því út með honum að ofan fellur Hólslækur (7) voru þar síðast lambhús. Þar ofan lækjar er annar hærri melur er nefnist Bæjarhóll (8) stóð og bærinn lengi á suðurenda hans, en síðast á öðrum hólbala litlu ofar skamma stund, því um 192.. varð jörðin eign kaupstaðarins og byggð öll að eyðirústum.
Neðsti hluti hins gamla túns er melrani mjög langur er sniðhalt gengur suður og upp og nefnist Langhóll (6) má ætla að bærinn hafi fyrst staðið utarlega á honum eru þar byggðarústir miklar og hægast að vatni, því út með honum að ofan fellur Hólslækur (7) voru þar síðast lambhús. Þar ofan lækjar er annar hærri melur er nefnist Bæjarhóll (8) stóð og bærinn lengi á suðurenda hans, en síðast á öðrum hólbala litlu ofar skamma stund, því um 192.. varð jörðin eign kaupstaðarins og byggð öll að eyðirústum.
Hafði út frá bæ verið Tveggjadagavöllur (9) nefndur en Dagslátta (10) efri balinn þar bærinn síðast stóð. Beint upp frá bæjarstæðum þessum er og hólbali með byggðaleifum nokkrum, má vera að þar hafi verið hjábýlið Hólkot (11) sem Jarðabók 1712 segir gamla eyðihjáleigu í heimatúni, síðast byggða upp um 1680 fá ár. Víðar hefði sú byggð getað verið því bæði á Langhól og hvarvetna um alla hávaða túnsins eru byggðaleifar frá ýmsum tímum nær óteljandi. Efsti jaðar túnsins er holtarani lágur, nefndist yst á honum: Kvíahóll (12) en syðst: Hesthúsgerði (13). Sunnan aðaltúnsins, niður frá enda Langhóls, er stakur hóll með gömlum tóftum, nefndur Hallberugerði (14) gæti þar og býlið Hólkot verið hafa, því helst virðist hin forna girðing hafa verið sunnan við hól þennan. Niður frá hinu gamla túni er melhólaklasi allt niður að á, voru þeir hólar berir og óræktaðir þó innan væru girðingar, en engi tveim megin þeirra, nefnast þeir Finnhólar (15) vestur frá þeim á ánni Finnhólavað (16) en suður frá þeim Finnhólaeyrar (17). Gengur forn lækjar- eða kvíslarfarvegur út gegnum þær og nefnist vestan hans: Ragnheiðarhólmi (18) er nú séreign, en fylgdi að síðustu Skarðdalskoti mun áin þó ekki hafa þar fallið síðan byggð hófst. Nokkrar þjóðsagnir eru við Finnhóla og Álfhól tengdar en virðast, eins og aðrar slíkar hér, næsta ómerkar.
Efst á Finnhólum hefir nú reist verið kúabú Siglufjarðarkaupstaðar og nokkuð ræktað af þeim og engjunum utan þeirra og innan. Efst út frá Finnhólum er stakt holt nefnt Hafliðaholt (19) ofanvið það fellur Hólslækur og allt út í Saurbæjarkíl og Langasíki nefnist út frá Hafliðaholti Kílskverk (20). Út og upp frá túni er stór melhóll með hjalltóftum nefndur Hjallhóll (21) sunnan á honum er hinn forni garður en hverfur út og niður frá honum í engið og einnig skammt suður og upp frá honum í votlent engi ofan túnsins, nefnast hallar grösugir þar upp af Enni (22) en út frá þeim Svarðarholt (23). Skammt suður frá túni er lækjarsytra Svartkollulækur (24) og þar upp í hallanum Fenhóll (25) getur þó vart hóll talist. Nokkurn spöl sunnar er Stekkjarlækur (26) utan og ofan við hann er urðarholtaklasi nefndur Hraun (27) en sunnan lækjar niður á árbakka Hólsrétt (28) er hún yngst aflagðra skilarétta Siglfirðinga sem margar voru hér á dalnum einkum vestan ár, var hún notuð til 192.. [1908] þar nefnist og á ánni Réttarvað (29). Litlu ofar, utan lækjar virðist og mjög forn réttarrúst vera á hól litlum og önnur litlu utar dilkalaus mjög forn.
Suður frá Stekkjarlæk er undirlendi hærra, ásar og melhæðir nokkrar, nefndir Stekkjarhólar (30) utarlega á þeim var hjábýli reist um 1680 í stekkjarstæði og þá nefnt Hólsstekkur, en síðar Sólheimar (31) fá ár stóð það þá, en máske eitthvað á fyrri hlut 18. aldar þó ei sé kunnugt. Suður og upp frá hólunum eru engjar góðar að hlíðarrótum og tún þar gróin með dýjavætum mörgum nefnist það land Grænur (32). Nokkuð innar, nær efst í Hólsfjalli er dæl all mikil nefnd Stóraskál (33) en sunnan hennar Hádegishnjúkur (34). Yst úr skálinni fellur Stórilækur (35) en syðst úr henni annar lækur ónefndur; er alllangt milli þeirra. Hvarvetna er hér grösugt neðan hinnar bröttu hlíðar og engjar miklar, nefnist undirlendið milli Stekkjarlækjar og Stóralækjar Stekkjarhólsstykki (36) en milli syðri lækjanna: Stóralækjarstykki (37) sunnarlega í því er Hólssel (38) eru þar seltóftir, hússtæði o.fl. því engjar eru þar umhverfis og nefnast: Selgrænur (39). Upp frá selinu er melrani nefndur Selhryggur (40) og nokkuð sunnar melhryggur milli gilja nefndur Reyniviðarhryggur (41) þar skammt innar er hóll einn mikill nefndur Stórhóll (42) og litlu innar í ánni Gálgafoss (43) ekki er orsök hér kunn til þess nafns, á það þó líklega sögu nokkra. Nokkuð innar fellur lækur ofan í dalbotninn, úr austurhlíð, nefndur: Þverá (44). Lækkar þar fjallið er inn dregur til Hólsskarðs og nefnast þar brúnir nokkrar, sem miðhlíðis: Þverárbrúnir (45). Er þar hinn fyrr nefndi Prestshnjúkur austur frá þeim en út frá Hólsskarði. Innst í botni dalsins er berg það er Draugaklettur (46) nefnist, er hann endamark Hólslanda en við tekur afrétt Siglfirðinga að innan og einnig vestan ár, lokast þar og dalurinn af hárri og flugbrattri fjallshlíð.
(Ritað með blýanti: Hólsskarðshæð (47))
Fara efst á síðu