Sá bær er ystur austan Siglufjarðar, beint gegn Þormóðseyri (kaupstaðnum). Það er fornt býli og sér þar nokkuð til fornra garða, um fremur lítið og óslétt tún, en engi er slétt og fagurt til beggja handa, sem víðast í byggðum þessum. Búið hefir hér oftast verið og telst jörðin enn í ábúð. [Til 1941]
Melhöfði stór er hér ofan við bæinn og er það Staðarhóll (2) sá er bærinn hefir nafn af fengið. En á það bendir staðarnafnið helst, að kirkjustaður hafi eitt sinn verið, enda líklegt að kirkjur hafi hér í fyrstu verið báðu megin fjarðar, þá mest var um þær og kunnugt að hér voru þær síðar á tveim stöðum öðrum.
Tveir eru hér fjallshnjúkar, annar beint upp frá bæ: Ytri-Staðarhólshnjúkur (3) en skammt sunnar: Syðri-Staðarhólshnjúkur (4) hefir hann vafalaust ráðið landamörkum. Suður frá túni til merkja er Staðarhólsengi (5). Neðan bæjar og allt út að Selvík nefnast: Staðarhólsbakkar (6) en allt frá bæ að Nesskriðum: Staðarhólsströnd (7). Sunnan við hólinn og túnið fellur lítill lækur, nefndur: Rjómalækur (8) norðan hans á hólbala litlum stóð hjábýlið: Rjómalækur (9) byggt á 16. eða 17. öld en stöðugt í auðn eftir 1640 nefnist þar nú Kothóll (10). Utan Staðarhólsins er: Kvíalaut (11) út frá henni: Rekstrarholt (12) og utan þess: Litlidalur (13).
Ofan Staðarhólsins er Kringlóttihóll (14) upp frá honum Langimelur (15). Lítið sunnar norðan Rjómalækjar er lítill grösugur stallur nefndur Nautaskál (16) og neðan hennar melhöfði Nautaskálarhóll (17). Allmikið ofar er stórt hvolf vestan við Staðarhólshnjúka nefnt: Skollaskál (18) og neðan við hana Skollaskálarbrún (19). Suður frá Rjómalæk eru sjávarbakkar lægri, nefnist þar Olnbogi (20). Þar var um og eftir 1910 reist Síldarverksmiðja og söltunarstöðvar 2 er allt fórst í snjóflóði vorið 1919 ásamt fleiri byggðum og 9 mönnum. Féll hér og annað slíkt voðaflóð 1839, koma þau úr suðvesturhlíð Ytri-Staðarhólshnjúks og fram úr Skollaskál hefir því hvorki býlið Rjómalækur né aðrar byggðir á þessu svæði haldist og er furðanlegt óvit að slíkt skuli ætlað. Sunnan við Olnboga er Grafalækur (21) svo nefndur af mógröfum miklum í Staðarhólsengi, en slíkar hafa hér stórskemmdir orðið á hinum fegurstu engjalöndum flestra býla, síðan þorpsbúum fjölgaði og virðist nú mjög úr hófi keyra að síðustu. Sunnan Grafalækjar var Staðarhólsbúð (22) var þar uppsátur en nú tóftir einar. Þar litlu sunnar í enginu hafa lengi verið steinar 2 nefndir Bræður (23) hafa þeir úr fjalli oltið og hinn 3. nýlega. Teljast þeir landamerki og einnig lækjardrag lítið ofan úr hlíð nefndur Merkjalækur (24) sennilega hefir þó Naustaá sem litlu sunnar fellur, verið hin fornu merki.
Út og niður frá bæ var laut lítil fremst í bökkunum nú hálf sigin og hrunin af, nefnd Álagabolli (25) hefur þar á stóru svæði í bökkunum lengi ekki vogað verið að slá eða við neinu að hreyfa sakir ótta við hefndir huldra vætta, enda slík trú hér mjög ríkjandi. Litlu utar er klettastapi fram frá bökkunum nefndur Álfakirkja (26) fram frá honum er blindsker lítið nefnt Kollur (27). Litlu sunnar, rétt við tún og tæpt á bökkunum er fjárhústóft nefnd Ástukofi (28). Þar skammt utar er sem túnblettur nokkur þýfður og tóftarústir, nefnt Lambhúsgerði (29) og norðan tóftanna Lambhúslækur (30). Þá er og túnblettur meiri litlu utar og sem nes lítið hálent nefnt Hesthúsnes (31). Tóftir eru hér nokkrar sumar fornar því líkt sem býli hafi eitt sinn hér verið þó ókunnugt sé. Sunnan tóftanna fellur Hesthúslækur (32) fram frá nesinu er Hesthúshlein (33) sunnan hennar lítil vík Hesthúsbás (34) en norðan nessins Klungurbás (35). Þar skammt utar er lítil vík nefnd Peningabás (36) sunnan við hann gengur mjó klettatá fram úr bökkunum og er gæn þúfa fremst á henni nefnd Peningaþúfa (37). Út frá Peningabás er klettadrangur frá laus bökkunum nefndur Stapi (38) og utan við hann Stapabás (39) þá er næst Breiðanes (40) og utan þess Breiðibás (41) þá Illafjara (42) og Illibás (43) en út frá þeim Selnes (44) og framan í því Ófæruvík (45) þar þrýtur Staðarhólsbakka.
Á Selnesi hefir verið Staðarhólssel (46) einnig líklega verbúðir og uppsátur í Selvík (47) norðan þess hér eru og sagnir um býli um eina tíð og bæ reisti hér hinn frægi sjógarpur Jón Austri Ólafsson frá Staðarhóli 1820-25 og var hér einbúi um sinn. Loks voru hér beitarhús fá ár eftir 1893 og stendur nú á rústum þess Selnesviti (48). Sunnan við byggðir þessar fellur lækur er Selá (49) nefnist kemur hann fram úr hlíðinni skammt ofar. Út og upp frá Selnesi gengur Kálfsdalur (50) austur og suðaustur í fjöllin en sunnan við mynni hans garður forn og mikill ofan úr fjallsöxlinni að sjó um norðurbrún Selness mun hann nefnst hafa Selvíkur- eða Selnesgarður (51).
Niður í dalinn frá norðurhlíð hefir í ómunatíð orðið framhlaup mikið eru þau úfin hálfgróin hrjóstur og niður frá þeim að sjó tveir hryggir er nefnst hafa Kambar (52) en milli þeirra og utan eru dældir grösugar nefndar: Kambalágar (53) og hin ysta þeirra og fegursta Kúalaut (54). Þar skamt utar er gildrag úr fjalli ofan nefnt Kambalágagil (55). Allt út frá Selvík eru skriðubakkar allháir er nokkuð hafa stöðugt eyðst af ágangi brims og veðra en neðan þeirra nefnist Langafjara (56). Fram frá Kambalágagili er blindsker nefnt Klukkusker (57). Er svo sagt að þá aðalkirkja var gjörð á Hvanneyri 1613 hafi hér bát hvolft er kirkjuklukku flutti frá Siglunesi og hún þar týnst. Þar skammt utar er Selaból (58) nefnt og gil allmikið upp frá því Selabólsgil (59) er skammt þaðan út að Hrafnsnefi sem áður getur og skilur hér lönd hinna innri og ytri byggða.
Uppí Kálfsdal miðjum er tjörn ein er Kálfsvatn (60) nefnist, í hana fellur Kálfsdalslækur (61) en framrás hefur vatnið neðan jarðar er fram kemur upp frá Selnesi og er það Selá áðurnefnd. Í leysingum og stórrigningum dugar útrás þessi ekki, hækkar þá vatnið og fellur einnig úr því lækur ofan jarðar. Um vatn þetta hafa hér því myndast hinar furðanlegustu sagnir sem trúgirni og fáfræði hafa getað upp spunnið, svo sem að uppganga sé þar frá sjó og stöðugt flóð og fjara, fullt hafi það verið af fiski uns búendur 2 deildu um veiði og drápu hvor annan en konur þeirra lögðu það á að fisklaust skyldi vera og fugl þar aldrei sjást !!
[Viðbót rituð með blýanti, illlæsileg: ]
Utan við Kálfsvatn er Sjónarhóll (62) austur úr dalnum eru hestfærar slóðir til Reyðarárdals um Kálfsskarð (63). Sunnan við Kálfsdalinn er Kálfshyrna (64) ........... Kálfsegg (65) skammt ............. Grásteinn (66)
Inn frá Kálfsdal en út frá Staðarhólshnjúk er..................... Hinrikshnjúkur (67) suðvestur frá honum er Fagurkinn (68) og .... Hinriks..?..... (69)