Grund

Bæjarstæðið í GrundarkotiÞað er augljóst fornbýli, hefir staðið alllangt inn frá Héðinsfjarðarvatni, austan Héðinsfjarðarár, skammt upp frá henni og fremur lágt. Fagurt er þar byggðarstæði, sléttir grösugir hallar og síbreiður engja allt neðan hlíða. Hefir tún verið gott, að mestu slétt og um það, ásamt stóru engi út frá því mikill forn garður, er glöggt sést út með hlíðinni en miður að utan. Er hann mest mannvirki í firðinum. Lönd hefir Grund átt að þverá þeirri er nokkuð fellur inn frá bæ og enn nefnist: Grundará (2) en út að Héðinsfjarðarvatni sem getið er og líklega nokkuð lengra. Haglönd því mikil, engi því meiri og gnægð veiði í vatninu og ánni.

Furðu snemma hefir þó þessi góða jörð í auðn farið. Hafa hinir heilögu kirkjufeður og snemma séð margra fanga von í firði þessum og í sínar aflaklær komið öllum nytjum hans, þegar á 13. öld eða 14. snemma. Beitti Hólastóll hér þá lengi tún og engi nautahjörðum sínum sumarlangt, en hirti hlunnindi og reka alla. Byggð gat hér þá naumast haldist, síst inn[i] í dalnum þar mest voru engi og því örtröð mest. Hafa þau fornbýli 3 er hér voru innra, þegar í auðn farið um 1300 eða skömmu síðar og þetta býli aldrei endurbyggt verið, þó Vatnsendi um síðir kæmi í þess stað. Getur Jarðabók 1712 þessa eyðibóls innarlega í löndum hans. Hafði það þá kotnafn fengið sem þá var títt um eyðibýli og nefndist: Grundarkot. Þegar svo Vatnsendi lengi eftir snjóflóðið 1725 lá í auðn, mun innsti hluti landa þessara hafa lagst undir Möðruvelli, sem hér er næst býla að innan. Nefndist síðan sá landshluti, einkum neðan fjalls Möðruvallapartur (3) og er hin forna Grund nær yst og neðst í honum.

GrundarkotUm 1809 var svo býli reist nokkuð út frá Grund en upp við hlíð og hólabrún nokkra, enda fennti þar í kaf um 1822 konu og búhokur Höskuldar Jónssonar er hér bjó 1817 – 30 og aftur síðar sem sjá má í Blöndu. Er hann hér talinn fyrsti búandi en víst höfðu hér 3 búið áður 1809 – 13 en svo í auðn farið. Fluttist þá hingað nafnið: Grundarkot (4) og hélst síðan. Hefir hér oftar búið verið og nýr bær reistur 193.. nokkuð utar. Var hér fyrst hjábýli frá Vatnsenda, síðar sjálfstætt. Hefir Grund nú enn nýtt nafn fengið og nefnist: Bakkakot (5). (Ólæsileg stutt viðbót rituð með blýanti.)


Fara efst á síðu