Skarðsdalur

Gamli bærinnn í SkarðsdalSá bær er framan við mynni dals þess er vestur gengur í hálendið yst úr Siglufjarðardal; skilur hann Siglufjarðar- og Úlfsdalafjöll er þó ná saman fyrir botni hans með hrygg mjóum. Yfir hann er hin helsta þjóðleið til Siglufjarðar (úr Fljótum) um skarð það er því nefnist Siglufjarðarskarð (1), dalurinn Skarðsdalur (2) og bærinn eftir honum. Stóð hann suður við á þá er nefnst mun hafa Skarðsdalsá (3) þó Leyningsá (4) kallist nú. Er hún aðalá dalsins og fellur syðst fram úr mynni hans, en önnur utar. Ganga hæðir nokkrar fram úr dalnum milli þeirra er nefnast Skarðsdalshryggir (5). Var byggðin suðaustan hæðanna og stóð ekki hátt; mun hún frá elstu tíð og sér þar nokkuð til fornra garða um tún meðalstórt, gott og grösugt. Lönd hefir býli þetta átt utan hinnar syðri ár, þar með mestan hlut Skarðsdals og nokkuð út fyrir mynni hans. Eru haglönd góð á dalnum og engi nokkur hið neðra í norðurhlíð hans. Kemur þaðan ytri áin, nefnd Grísará (6), en allt út frá henni neðan við dalmynnið eru samfelld engi, slétt og fögur. Nefnist þar út til merkja Skarðsdalsengi (7). Engi eru og niður frá bæ, nefnast þar innst Skarðsdalseyrar (8) en utar Skarðsdalsmýrar (9). Garður mikill og forn hefir verið þvert yfir mynni dalsins nokkurn spöl upp frá bæ er nefnst hefir Skarðsdalsgarður (10). Hefir búfénaður verið hafður ofan hans og friðuð engi Skarðsdals og Ness. Er glöggt á honum hlið vegarins.

 

 

GrafargerðiHér var svo annar bær reistur nokkuð utar, fremst á enda hæðanna. Hefir það svo orðið aðalbýlið og nefnst Skarðsdalur (ytri). Er þar útsýn góð og fannlög minni, túnefni þó verra og allmislent. Hefir þessi breyting orðið fyrir 1650 og máski nokkuð fyrr reist hið nýja býli. Svo var þó búið á hinu gamla býli meirihlut 17. aldar og máski alltaf, en taldist þá hjáleiga og nefndist Skarðsdalskot (11). Hélst þar jafnan ábúð síðan; varð sjálfstætt býli með tún sitt allt og engi fráskilin enda séreign að síðustu þótt hagar væru sameign. Var selt kaupstaðnum 192[4] og fór bráðlega í auðn. Ekki eru örnefni nú kunn nálægt bæ þessum utan steinn út og niður á túni, nefndur Gægir (12), og sunnan við bæinn Dagslátta (13). Er í henni einn þeirra mörgu bletta hér sem enginn þorir að nytja. Jafnan hefir ytra býlið haft meirihlut engja og landsnytja, þar er og tún orðið allmikið ummáls. Hafa að því stutt hjáleigur tvær er byggðust út frá því. Var önnur þeirra reist um 1680 allmikið upp frá bæ, nefnd Háagerði (14) og stóð til 1697. Hin um 1910 neðst út frá túni, nefnd Grafargerði (15); stóð hún til 19[18] Á aðalbýlinu hefur búið verið til þessa árs (1941) en keypt er það nú af kaupstaðnum og notað að nokkru af kúabúi hans sem og hin eyðibýlin, enda óbyggt og engin mjög spillt af svarðarbroti fyrr og nú, næsta óskipulegu, og sum gjöreydd. Þar sem bærinn stendur fremst á hæðarbrún eru melhöfðar tveir litlir. Hefir hann frá fyrstu staðið á þeim syðri en er nýlega færður á hinn ytri. Sunnan bæjarstæðis er stór steinn stakur, nefndur Steinkerling (16), en út og niður frá bæ þríhyrnd túnspilda milli gamalla slóða, nefnd Bóndateigur (17). Skammt ofan bæjarstæðis er Hesthúshóll (18); var þar síðast fjós en ofar og sunnan við túnið er Kvíahóll (19) hár og mikill. Norðvestur frá honum er tún Háagerðis, tveir hólar með nær sléttum túnröðli á milli, nú efst af túni; er hinn syðri hærri og hefir þar líklega býlið verið en síðar fjárhús. Niður frá honum er hólaröðull, tveir hólar með tóftum, nefnast Miðgerði (20) og Neðstagerði (21). Er það út og upp frá bæ, en keldusund þar þvert um túnið og upp tveim megin þessa röðuls. Niður frá ytri hól Háagerðis er og hinn þriðji og ysti röðull, einnig tveir hólar, með tóftum; hinn efri stór, lítt ræktaður, nefndur Bergsgerði (22), var Bergur sá hér á parti 1857-9; hinn neðri lítill, nefndur Þórðargerði (23).

Sjónarhóll, gamli vegurinn sést greinilegaNorðan þessa röðuls, en sunnan Grísarár, sem hér fellur út frá túni, liggur hinn kunni Skarðsvegur (24) upp til Skarðsdalshryggja og dalsins. Var norðan hans við ána en út og niður frá Þórðargerði melhóll lítill - nú mjög brotinn til vegagjörðar - nefndur Fiskholt (25). Sunnan hins gamla vegar ofan við tún Háagerðis var áður títt að á í grösugri dæl er því nefndist Höfðingjalaut (26). Þar skammt ofar, norðanvert á Skarðsdalshryggjum, nefnist Sjónarhóll (27). Neðst í Skarðsdalsmýrum, niður frá bæ, er holt eitt lítið nefnt Kjóaholt (28). Norðan Grísarár, gegnt bænum, nefndist syðsti hluti Skarðsdalsengis Neðri-Kottunga (29). Hafði Skarðsdalskot lengi þann hlut engisins. Nokkur smáholt eru þar og utar í enginu, nefnist eitt hið ysta þeirra Haraldarholt (30). Hafði Haraldur nokkur þar búskap um sinn.
Norðan við mynni Skarðsdals er fjallstindur allhár og fráskilinn Úlfsdalafjöllum að ofan af grunnum daladrögum, nefnist hann Snókur (31). Fram úr lægðinni norðan hans falla lækir tveir er sameinast neðan hlíðar og nefnast Snóksá (32). Fellur hún suður og niður utan engisins og meður merkjum. Milli lækja þessara í hlíðinni er melhöfði er nefnist Skjöldur (33) en gilin tveim megin hans Syðra-Skjaldargil (34) og Ytra-Skjaldargil (35) er nú telst merki. Austan í Snók eru og giljadrög þrjú. Nefnist hið ysta Ausa (36), þá hið lengsta, nokkuð innar, Hvítbergsgil (37) og litlu innar Moldgil (38). Þrjár eru taldar gangfærar leiðir þvert um hina bröttu hlíð Snóks, neðst Ausugata (39) þá Hvítbergsskeið (40) og efst Breiðaskeið (41), en Hvítberg (42) nefndist berghlein í hlíðinni þar sem samnefnd skeið og gil skerast.

Illviðrishnjúkur - Snókur - SkjöldurNeðan hlíðar, suður frá Snóksá, eru og grundir þrjár efst í enginu. Nefnast þær Ystagrund (43), Miðgrund (44) og Syðstagrund (45). Upp frá Skarðsdalsengi hefir hinn forni garður, sem getið er, legið þvert yfir dalmynnið og upp í hlíð Snóks. Sést til hans uns graslendi þrýtur. Við hann, utan Grísarár, hefir síðar verið byggður stekkur er nú nefnist Gamlistekkur (46). Er þar, einkum ofan garðsins, nokkuð lágra holta og nefnist það svæði Stekkjarhólar (47).
Vestan Snóks eru dælar miklar hið efra milli hans og háfjalla að vestan, er nefnast Leirdalir (48); falla úr þeim lækir tveir suður í Skarðsdal. Milli þeirra á brún dalsins er melhöfði allstór, nefndur Miðhaus (49), en lækirnir Neðri-Miðhauslækur (50) og Efri- Miðhauslækur (51). Sameinast þeir á dalnum ofan Stekkjarhóla og mynda Grísará. Milli þeirra, neðan hlíðar, er grösug engjatunga, nefnd Efri-Kottunga (52) af sömu ástæðum og hin neðri. Upp frá tungunni og Skarðsdalshryggjum, sem og enda sunnan hennar, er allstórt svæði hólótt og mislent. Er neðri hluti þess grösugur svo flestir eru hólarnir grónir, enda nefndir Grashólar (53), og hlíðin norðvestan þeirra Grashólabrúnir (54). Innan til úr þessum hólum kemur Grashólalækur (55), hefir fallið í Skarðsdalsá, en verið leiddur niður Skarðsdalshryggi og allt heim að báðum býlunum, sem getið er. Innan til á Grashólum eru steinar tveir stakir, stendur hinn stærri allhátt og nefnist Grásteinn (56), hinn austar og lægra á hól litlum, nefndur Könnusteinn (57) af lögun sinni. Innri hluti hóla þessara er miður grösugur og nefnist Þvergilsbalar (58) því innan þeirra er Þvergil (59), liggur frá norðvesturhlíð að Skarðsdalsá, sem hvarvetna fylgir suðurhlíð dalsins og þvert því um hina gömlu þjóðleið. Innan þess eru melbungur nokkrar lágar, nefndar Þvergilsöldur (60).

Miðhaus uppi á SnókOfan við upptök Þvergils gengur hæðatangi nokkur frá Úlfsdalafjöllum lækkandi og hverfandi suður í dalinn. Verður því botn hans sem hvarf eður afvik nokkurt ofan þessa hæðatagls er nefnist Siglufjarðarháls (61); er suður frá enda hans við veginn steinn allstór nefndur Kirkjusteinn (62). Nokkuð vestar við veginn niður frá Siglu-fjarðarskarði er Skarðshóll (63). Austan Þvergilsalda kemur aðalkvísl Skarðsdalsár sunnan úr hvolfi því er syðst gengur af dalnum og nefnist Skarðsdalsvik (64). Er það hinn syðri botn hans og skilja þá hæðir nokkrar og fjallshnjúkur sá er Skarðshnjúkur (65) nefnist, en sunnan hans og norðan eru eggþunnir hryggir sem saman tengja háfjöllin og skilja botna Skarðsdals og Hraunadals (að vestan); er norðan hnjúksins Siglufjarðarskarð en sunnan Afglapaskarð (66). Er ýmsum hætt að villast í það er að vestan kemur þá dimmt er og fannir því líkar. Eru þar uppgöngur en afglöp þykja það ill, því lítt fært er að austan. Uppi á ytri hryggnum, sunnan götu, er klettabrík ein að norðan hnjúksins er nú nefnist Altari (67). Mun nafn þetta hafa færst á brík þessa nýlega þá hrunið var og horfið „grjótaltari“ það er þar var „byggt“ 1735, þá fram fór hin fræga athöfn hér, bænir og vígsla, sakir hræðslu íbúa þessara byggða við ofsóknir hulinna vætta á leið þessari og víðar, er þá gekk svo úr hófi að heftar voru samgöngur að mestu. Varð hér þá til óheyrðra ráða að taka og var fjölmenni hér saman stefnt enda trúðu menn því hér að nokkuð væri óhættara síðan. Lifði þó enn í þeim kolum og bænir voru hér fluttar svo lengi, að vel muna það miðaldra menn. Nokkuð út frá skarðinu er á hinum hækkandi fjallhrygg lítið skarð, nefnt Steindyr (68). Nokkuð utar hæsti tindur Úlfsdalafjalla, Illviðrahnjúkur (69), og suðaustan hans urðarhvolf nokkur, Illviðraskálar (70).
Stafsetningu hefur verið breytt af Örnefnastofnun. (Handrit fannst ekki)
„...sennilega 1924“ (Frá Hvanndölum til Úlfsdala II, bls. 545).
Þar var búið til 1918 (sbr. Frá Hvanndölum til Úlfsdala II, bls. 568).
1858-1859 (skv. Frá Hvanndölum til Úlfsdala II, bls. 589-590).

SkarðdalsvíkSól og snjór í Skarðsdal

 

 

 

 

 

 

 

 


Fara efst á síðu